José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea hefur sent nýráðnum yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu, Ísraelsmanninum Avram Grant, skýr skilaboð. Hann sé velkominn til Chelsea en eigi að hafa sig hægan og skipta sér ekki af málum sem séu á sínu verksviði - að sjá um lið Chelsea.
Grant, sem áður var landsliðsþjálfari Ísrael, var ráðinn í síðustu viku og hann fór beint með Chelsea í æfingabúðir í Los Angeles á mánudaginn.
„Ég held að félagið hafi sent út skýr skilaboð en ef menn vilja vita meira um vinnulag Grants, verða þeir að ræða við hann sjálfan. Hann er kominn hingað til að styrkja ýmis svið hjá félaginu og fyrir mér er það ekki vandamál.
Ef félagið vill ráða fólk til að gera innviði þess betra og búa til starf fyrir einhvern sem getur gert það, þá er það besta mál. Hvað mig varðar þá má hann ekki skipta sér af mínum málum. Ég býð hann velkominn og reyni að verða honum til aðstoðar á ýmsum sviðum," sagði Mourinho.