Tevez í læknisskoðun hjá United eftir helgi

Carlos Tevez fyrir hótelið sem argentínska landsliðið dvelur á í …
Carlos Tevez fyrir hótelið sem argentínska landsliðið dvelur á í Venesúela. Reuters

Manchester United vinnur hörðum höndum við að fá argentínska framherjann Carlos Tevez í sínar raðir og nú hefur verið ákveðið að hann gangist undir læknisskoðun hjá Englandsmeisturunum á þriðjudaginn.

Væntanleg félagaskipti Tevezar frá West Ham til United er töluvert flókið ferli. Íranski kaupsýslumaðurinn Kia Joorabchian kveðst eiga samningsrétt Tévez en stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur hótað því að verði ekki viðskiptin eingöngu á milli West Ham og Manchester United muni West Ham verða beitt frekari refsingu.

West Ham var sektað um 5,5 milljónir punda, 700 milljónir króna, í vor þar sem ekki var staðið rétt að félagaskiptum Tévez frá Corinthians í Brasilíu til West Ham á sínum tíma.

Joorabchian segir að málið verði leyst á næstu dögum en Manchester United hefur þegar náð samningi við leikmanninn sjálfan um kaup og kjör. Heimildir herma að Tevez komi til að fá 4,5 milljónir punda í laun á ári sem jafngildir 554 milljónum íslenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert