Handtökuskipun gefin út á Joorabchian í Brasilíu

Carlos Tévez einbeitir sér að landsliði Argentínu þessa dagana en …
Carlos Tévez einbeitir sér að landsliði Argentínu þessa dagana en það er komið í úrslitaleik Ameríkubikarsins. Reuters

Málefni Carlos Tévez, knattspyrnumannsins snjalla frá Argentínu sem leikur með West Ham, tóku nýja stefnu í morgun þegar brasilísk yfirvöld gáfu út handtökuskipun á Kia Joorabchian, kaupsýslumanninn sem á samningsrétt Tévez og keppti við Eggert Magnússon um að kaupa West Ham í haust. Taldar voru miklar líkur á að Tévez væri á leið til Manchester United en útlit er fyrir að þessi nýjustu tíðindi tefji það mál enn frekar.

Joorabchian, sem er íranskur og mikill vinur Tévez, sem segist ekkert gera án náins samráðs við hann, er ákærður fyrir peningaþvætti, samvinnu við glæpamenn og fyrir þátt sinn í tengslum á milli fyrirtækis síns, MSI, og brasilíska félagsins Corinthians. Með því liði lék Tévez áður en hann fór til West Ham í lok ágúst á síðasta ári.

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United, sagði við BBC að hann væri vongóður um að Tévez væri á leið til félagsins. Frá West Ham bárust hinsvegar þau orð að þar á bæ væru menn undrandi á þessum fullyrðingum og sögðu þau óábyrg. Ekkert tilboð hefði borist félaginu í Tévez og stjórn ensku úrvalsdeildarinnar myndi ekki samþykkja nein kaup á honum nema staðfest væri að West Ham fengi kaupverðið, ekki fyrirtæki Joorabchians.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert