Hæstiréttur í Englandi vísaði í dag frá áfrýjun knattspyrnufélagsins Sheffield United sem freistaði þess að hnekkja úrskurði gerðardóms í máli ensku úrvalsdeildarinnar, West Ham og Carlos Tévez. Gerðardómurinn hafði áður staðfest þá ákvörðun úrvalsdeildarinnar að draga ekki stig af West Ham fyrir að standa ekki rétt að félagaskiptum Tévez síðasta haust.
Lögmaður Sheffield United sagði að félagið útilokaði ekki að reyna áfram að höfða mál gegn úrvalsdeildinni eða West Ham. „Við munum skoða stöðu okkar með fagaðilum og gefa frekari yfirlýsingar þegar það er tímabært," sagði lögmaðurinn, Paul Stothard.
Stjórnarformaður Sheffield United, Kevin McCabe, kveðst hafa sætt sig við að félagið muni ekki halda sæti sínu í úrvalsdeildinni en vill fá allt að 50 milljónir punda í skaðabætur vegna málsins.
„Ég tel að allir sem skoða málið sjái að það hefur bitnað á einu félagi, og að eina leiðin sé að leiðrétta það á fjárhagslegum nótum. Fyrst úrslitaleikur umspilsins um sæti í úrvalsdeildinni er talinn 60 milljón punda virði og Sheffield United fékk 31 þúsund manns að meðaltali á leiki sína í úrvalsdeildinni, ásamt því að gera ráð fyrir tekjum af lúxussætum, veitingum og sjónvarpi, myndi ég áætla að bætur okkur til handa ættu að nema um 50 milljónum punda," sagði McCabe.
Forráðamenn Sheffield United höfðu vonast til þess að með málarekstrinum næðu þeir að halda félaginu í úrvalsdeildinni, annaðhvort með því að West Ham yrði fellt niður í 1. deild í staðinn eða Sheffield United yrði bætt við sem 21. liði deildarinnar næsta vetur.