Peter Hill-Wood stjórnarformaður Arsenal segist bjartsýnn á að knattspyrnustjórinn Arsene Wenger geri nýjan samning við félagið en viðræður um nýjan samning við Frakkann hafa verið teknar upp að nýju. Wenger hefur verið við stjórnvölinn hjá Lundúnarliðinu í 11 ár en vangaveltur hafa verið uppi að hann hætti hjá félaginu þegar núgildandi samningur hans við liðið rennur út eftir næsta tímabil.
,,Ég er bjartsýnn á að Wenger verði hjá okkur áfram og vonandi hef ég jákvæðar fréttir að færa innan tíðar. Við áttum góðar viðræður saman fyrir nokkru," segir Hill-Wood.
Stjórnarformaðurinn segist bjartsýnn fyrir hönd Arsenal þrátt fyrir að Thierry Henry, besti leikmaður félagsins undanfarin ár, hafi yfirgefið félagið á dögunum.
,,Ég er mjög afslappaður. Við höfum yfir góðum mannskap að ráða og höfum bætt nokkrum leikmönnum við. Þetta eru nöfn sem sem fáir hafa heyrt en þetta er í anda Arsene Wengers. Fólk vissi til að mynda ekki mikið um leikmenn eins og Thierry Henry, Patrick Vieira eða Cesc Fabregas þegar þeir komu til okkar," sagði stjórnarformaðurinn.