Heinze vill yfirgefa United

Gabriel Heinze fagnar marki sínu með Argentínumönnum gegn Mexíkó í …
Gabriel Heinze fagnar marki sínu með Argentínumönnum gegn Mexíkó í S-Ameríkukeppninni. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hefur staðfest að argentínski landsliðsmaðurinn Gabriel Heinze vilji yfirgefa félagið. Heinze, sem varð undir í baráttunni við Patrice Evra um vinstri bakvarðarstöðuna í liði United á síðustu leiktíð, hefur verið orðaður við Liverpool á undanförnum vikum sem og spænsku stórliðin Real Madrid og Barcelona.

,,Umboðsmaður Heinze hefur tjáð okkur að hann vilji fara frá félaginu. Ég hef ekki rætt við hann sjálfan og það hafa engin tilboð komið frá öðrum liðum í hann," segir Ferguson.

Heinze, sem var í liði Argenínumanna sem töpuðu 3:0 fyrir Brasilíumönnum í úrslitaleik í S-Ameríkukeppninni í gær, gekk til liðs við United frá franska liðinu Paris Saint Germain fyrir þremur árum og greiddi Ferguson 6,9 milljónir punda fyrir hann. Heinze hefur leikið 83 leiki fyrir félagið en hann missti töluvert úr tímabilið 2005-06 vegna meiðsla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert