Manchester United hefur beðið um hjálp FIFA til að greiða úr þeirri flækju sem félagaskipti Carlos Tevez frá West Ham til Manchester United eru orðin. Eins og frægt er orðið meinaði West Ham leikmanninum að gangast undir læknisskoðun hjá United í gær. West Ham hefur einnig beðið FIFA um aðstoð og sagði forsvarsmaður West Ham ,,Allir aðilar eru sammála um að það sé besta leiðin í þessu máli."
FIFA mun setja saman nefnd sem að úrskurða mun um hver sé raunverulegur eigandi leikmannsins og í framhaldi af því við hverja United þarf að semja við um kaup á leikmanninum.
Samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar verða West Ham og United að komast að samkomulagi um Tevez, því að þriðji aðili má ekki eiga leikmann og því er ekki nóg fyrir United að komast að samkomulagi við Kia Joorabchian, sem að keypti Tevez og Javier Mascherano á sínum tíma.
West Ham segjast enn bíða eftir að tilboð berist frá United í leikmanninn og hann fari ekki neitt fyrr en félögin komist að samkomulagi sín á milli.