Knattspyrnumaðurinn Heiðar Helguson skrifaði nú rétt áðan undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Bolton. Heiðar hefur verið á mála hjá Fulham frá árinu 2005 og átti tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. Bolton greiðir Fulham 1,9 milljón punda, 156 milljónir króna, fyrir Heiðar en sú upphæð getur hækkað upp í 2,2 milljónir punda, 180 milljónir króna.
,,Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og ég lít á þessi skipti sem stórt skref upp á við fyrir mig," sagði Heiðar við mbl.is.
Heiðar þrítugur að aldri sem hefur verið atvinnumaður frá árinu 1997. Hann lék í tvö ár með Lilleström í Noregi. Þaðan lá leiðin til Watford sem hann lék með í sex ár við afar góðan orðstír og 2005 var hann seldur til Fulham fyrir 1,5 milljónir punda.