Paul Scholes miðjumaðurinn snjalli hjá Englandsmeisturum Manchester United segist hafa misst leikgleðina þegar hann spilaði með landsliðinu og það hafi verið ástæðan fyrir því að hann ákvað að leggja landsliðsskóna á hilluna fyrir þremur árum.
,,Ég hafði bara ekki lengur gaman af að spila með landsliðinu, og kannski vegna þess að ég spilaði ekki nógu vel. Ég er mjög heimakær og fannst það hræðilega leiðinlegt að vera svo oft í burtu frá fjölskyldunni," segir Scholes í viðtali við breska blaðið News of the World.
Scholes lék 66 landsleiki en hans hefur verið sárt saknað í enska landsliðinu. Scholes, sem er 32 ára gamall, hefur hins vegar útilokað endurkomu í landsliðið.
,,Það er ekki nokkur vafi að eftir að ég hætti með landsliðinu hef ég spilað betur með Manchester United. Það er afar gott að fá frí þegar landsleikjatörnin er í gangi og það gefur mér meira svigrúm til að einbeita mér að United og vera meira með fjölskyldunni. Ég hef verið svo heppinn að sleppa við alvarleg meiðsli og vonandi verður svo áfram," segir Scholes sem missti þó mikið úr á leiktíðinni 2005-06 vegna augnsjúkdóms.