Chelsea tapaði sínum fyrsta leik á undirbúningstímabilinu þegar liðið tapaði fyrir Rangers, 2:0, en liðin áttust við í æfingaleik í Glasgow í dag. Mörg ensk úrvalsdeildarlið léku æfingaleiki í dag en liðin eru á fullu í undirbúningi fyrir tímabilið sem hefst um aðra helgi.
Arsenal hafði betur gegn franska liðinu Paris St Germain, 2:1, á Emirates Cup mótinu. Mathieu Flamini og Nicklas Bendtner komu Arsenal í 2:0 en Peguy Luyindula lagaði stöðuna fyrir Frakkana. Bendtner fékk kjörið tækifæri til að bæta öðru marki við en honum brást bogalistin af vítapunktinum.
Fredrik Ljungberg og Craig Bellamy skoruðu báðir sín fyrstu mörk fyrir West Ham þegar liðið sigraði Southend, 3:1. Ljungberg lagði upp fyrsta markið fyrir Bobby Zamora, Bellamy bætti við öðru marki og Ljungberg kom Íslendingaliðinu í 3:0 í byrjun seinni hálfleiks.
Leroy Lita skoraði þrennu fyrir Reading þegar liðið sigraði Brighton, 3:1, eftir að hafa lent 1:0 undir með sjálfsmarki frá Michael Duberry. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru báðir í byrjunarliði Reading.
Middlesbrouh tapaði 1:0 fyrir skoska úrvalsdeildarliðinu Hibernian en skoska liðið hafði betur gegn Bolton, 3:0, fyrr í vikunni.
Mikael Forssell og Cameron Jerome tryggðu Birmingham 2:0 sigur á Walsall en Forsell hefur verið sérlega iðinn við að skora fyrir Birmingham á undirbúningstímabilinu.
Heiðar Helguson lék fyrsta klukkutímann fyrir Bolton sem marði Tranmere á útivelli, 1:0. Ricardo Vaz Te skoraði sigurmarkið á lokamínútum leiksins. Heiðar sem var að spila sinn annan leik fyrir Bolton mistnotaði gott færi í fyrri hálfleik en hann lék í fremstu víglínu.
Wigan vann öruggan sigur á Halifax, 4:0. Emile Heskey og Jason Koumas skoruðu í fyrri hálfleik og varamaðurinn Julius Aghahowa bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik.