Richard Scudamore, formaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, staðfesti í dag að stjórn deildarinnar myndi fjalla um mál Argentínumannsins Gabriels Heinze. Hann vill losna frá Manchester United og ganga til liðs við Liverpool en forráðamenn United vilja ekki að hann fari yfir til erkifjendanna.
Heinze leitaði til stjórnar deildarinnar til að leysa sitt mál og Scudamore sagði að slíkt væri alls ekki óvenjulegt. „Við fjöllum oft um slík mál, það eru fimm til átta slík sem koma upp í hverjum mánuði. Nú eiga hinsvegar tvö stórlið í hlut og þá vekur þetta meiri athygli. Ég á von á að þetta mál verði leyst áður en lokað verður fyrir félagaskiptin um næstu mánaðamót. Allir aðilar vilja skjóta lausn og það er okkar hlutverk að finna hana," sagði Scudamore.
Fari svo að Heinze gangi til liðs við Liverpool verður hann fyrsti leikmaðurinn í rúm 40 ár sem verður seldur á milli þessara tveggja félaga sem hafa lengi eldað grátt silfur á knattspyrnuvellinum.