Tottenham og Aston Villa léku í kvöld síðustu æfingaleiki sína áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefst um næstu helgi. Tottenham vann utandeildaliðið Grays Athletic, 3:2, en Villa gerði jafntefli, 1:1, við 2. deildarliðið Walsall.
Það voru Kevin-Prince Boateng, Leigh Mills og Adel Taarabt sem skoruðu mörkin fyrir Tottenham gegn Grays. Boateng, sem kom til Tottenham frá Herthu Berlín á dögunum, skoraði þar með í fyrsta leik sínum fyrir félagið.
Mark Villa gegn Walsall var sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Zoltán Stieber en úrslitin þýða að lið Aston Villa fór ósigrað í gegnum undirbúningstímabilið.