Enskir fjölmiðlar halda áfram að fjalla um Eið Smára Guðjohnsen, landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, og möguleikana á því að hann snúi aftur til Englands frá Barcelona. Í dag er sagt að Newcastle ætli sér að skáka West Ham og krækja í Íslendinginn, fullyrt að Eiður hafi hafnað því að ganga til liðs við West Ham, og að Sven-Göran Eriksson hjá Manchester City vilji fá hann í sínar raðir.
Dagblaðið Independent segir að Eiður hafi hafnað því að fara til West Ham, eftir að Eggert Magnússon og hans menn hefðu náð samkomulagi við Barcelona um kaup á honum.
Nú séu Manchester City og Newcastle komin inní myndina en Eiður geti farið frá Barcelona fyrir 8 milljónir punda, rúman einn milljarð króna.
Daily Telegraph segir í dag að Newcastle sé tilbúið til að slást við West Ham um að fá Eið Smára til sín en West Ham hafi boðið Barcelona 7 milljónir punda, um 900 milljónir króna, fyrir hann.