Breska götusölublaðið Daily Mirror segir að launakröfur Eiðs Smára Guðjohnsens, leikmanns Barcelona, séu svo háar að bresk knattspyrnulið, sem ella hefðu áhuga á að fá hann í sínar raðir, haldi að sér höndum.
Blaðið segir að nokkur ensk lið, þar á meðal West Ham og Middlesbrough og jafnvel Blackburn, hafi sýnt Eiði Smára áhuga eftir að í ljós kom að kaupverðið væri um 6,7 milljónir punda, jafnvirði um 900 milljóna króna. Eiður setji hins vegar um 100 þúsund punda laun á viku, jafnvirði 13,3 milljóna króna. Þetta sé hærra en bresku liðin ráði við.