Carragher endanlega hættur með enska landsliðinu

Jamie Carragher, til hægri, er hættur að leika með enska …
Jamie Carragher, til hægri, er hættur að leika með enska landsliðinu. Reuters

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, staðfesti við enska fjölmiðla í dag að Jamie Carragher, varnarmaður Liverpool, stæði við þá ákvörðun sína að hætta að gefa kost á sér í enska landsliðið.

Carragher sagði í sumar að hann sæi ekki fyrir sér að úr þessu yrði hann fastamaður í landsliðinu og á sínum aldri, 29 ára gamall, hefði hann ekki lengur áhuga á að vera bara í hópnum, án þess að spila.

„Ég hitti Jamie á mánudaginn og átti mjög gott samtal við hann, en því miður stendur hann fast á þeirri ákvörðun sinni að hætta að spila með okkur. Við virðum þá ákvörðun hans, Jamie hefur verið frábær sem landsliðsmaður Englands og ég mun ekki loka neinum dyrum á hann - það veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði McClaren, sem á í vandræðum þar sem margir landsliðsmenn Englands glíma við meiðsli um þessar mundir.

Englendingar mæta Þjóðverjum í vináttulandsleik næsta miðvikudag og mæta síðan Ísrael og Rússlandi í undankeppni EM í september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert