Roy Keane: Eiginkonurnar ráða of miklu

Roy Keane segir að verslanir og kaffihús eigi ekki að …
Roy Keane segir að verslanir og kaffihús eigi ekki að ráða för hjá leikmönnum þegar þeir velja sér félag. Reuters

Roy Keane, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland, kveðst hafa misst af því að fá nokkra sterka leikmenn í sínar raðir vegna þess að unnustur þeirra eða eiginkonur vildu frekar búa í London. Keane sagði í viðtali við Skysports að eiginkonurnar ráði of miklu í fótboltanum í dag og það sé með ólíkindum hvernig sumir leikmenn láti þær ráðskast með sig og sinn knattspyrnuferil.

„Forgangsröð fótboltamanna hefur breyst og staðreyndin er sú að eiginkonurnar og unnusturnar eru farnar að stjórna þeirra ferli. Ég hef áhyggjur af þessari þróun, og gæti hæglega nefnt þrjá til fjóra af bestu knattspyrnumönnum landsins í dag sem augljóst er að láta stjórna sér á þennan hátt. Þeir fara í alls konar myndatökur og segja svo að þeim þyki óþægilegt að standa í slíku. Þá ættu þeir ekki að gera það. Það eru eiginkonurnar sem draga þá í þetta. Þessar svokölluðu stórstjörnur sem aðrir eiga að líta upp til eru veikgeðja og það er enginn töggur í þeim," sagði harðjaxlinn Keane.

„Við vorum í sambandi við leikmann í sumar en hann sá ekki einu sinni sóma sinn í að láta okkur vita að hann myndi ekki koma vegna þess að eiginkonan vildi frekar vera í London. Ég skil vel að London sé aðlaðandi ef þú ætlar að fara að spila með Arsenal eða Chelsea, jafnvel Tottenham, en margir leikmenn fara þangað, bara vegna þess að þetta er London, og það er rangt hugarfar. Þeir fara til miðlungsfélaga með litla aðsókn. Þessir leikmenn láta ekki fótboltann ráða ferðinni, heldur lífstílinn, og þannig menn vil ég hvort eð er ekki fá í mitt lið. Svona leikmenn eru linir og eiginkonurnar stjórna lífi þeirra," sagði Keane.

Hann upplýsti jafnframt að það hefði ekki munað miklu að hann hefði gengið til liðs við ítalska félagið Juventus frá Tórínó undir lok ferilsins með Manchester United. Þá hefði einmitt verið reynt að höfða til þess hve flott það væri að vera á Ítalíu.

„Maður verður að semja við lið vegna fótboltans. Þegar ég var nærri því farinn til Juventus sögðu ýmsir við mig að Tórínó væri svona og svona borg og það yrði skemmtilegra að búa í Mílanó. Ég svaraði því til að ég væri ekki að fara vegna fjandans verslananna, ég væri að fara vegna Juventus.

Fótboltinn verður að vera í forgangi. Maður þarf ekki að búa í London eða Manchester til að vera ánægður, maður þarf ekki að vera með endalausar búðir og kaffihús í kringum sig. Hver er forgangsröðin hjá þér, verslunarferðir eiginkonunnar eða fótboltinn? Eða peningarnir? Þegar leikmenn vilja ekki koma til Sunderland vegna þess að eiginkonurnar vilja geta verslað í London, er ástandið orðið dapurlegt," sagði Roy Keane, sem berst við að reyna að styrkja lið sitt fyrir erfiða baráttuna í úrvalsdeildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert