Talsmaður enska knattspyrnufélagsins Sheffield United staðfesti í morgun að félagið ætlaði að lögsækja Íslendingafélagið West Ham og krefja það um 30 til 50 milljónir punda í skaðabætur. Það er vegna máls Carlos Tévez í vetur og vor en forráðamenn Sheffield United telja sig hafa verið órétti beitta þegar stjórn ensku úrvalsdeildarinnar ákvað að draga ekki stig af West Ham þegar í ljós kom að ekki var rétt staðið að félagaskiptum Argentínumannsins.
Sheffield United sótti fast í vor að úrskurðinum yrði breytt og West Ham svipt stigum, sem hefði þýtt að Íslendingafélagið hefði fallið úr ensku úrvalsdeildinni í stað Sheffield United. Úrskurðardómstóll úrvalsdeildarinnar vísaði kröfu Sheffield United frá, félagið fór þá með málið fyrir hæstarétt en þar fór á sömu leið.
Forráðamenn Sheffield United telja að félagið tapi 30 til 50 milljónum punda, 4 til 6,7 milljörðum króna, á því að hafa fallið úr úrvalsdeildinni og krefjast þess að West Ham bæti þann skaða.