Alan Curbishley, knattspyrnustjóri West Ham, brást reiður við frétt enska götublaðsins The Sun í gær um að hann og Craig Bellamy, sóknarmaður liðsins, hefðu rifist heiftarlega eftir ósigur West Ham gegn Manchester City í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Curbishley segir að ekki sé fótur fyrir fréttinni.
„Ég get staðfest að þessi frétt um að ég og Craig höfum rifist er gjörsamlega úr lausu lofti gripin, og ég velti því fyrir mér hvers vegna svona sögur komast á kreik. Það er eins og þetta sé skipulagt og ég virðist vera skotmark hjá einhverjum um þessar mundir. Þegar ekki er ráðist að mér, þá er ráðist að félaginu.
Ég get ekkert gert við þessu nema staðfest að ekkert gerðist á milli mín og Craigs, þetta eru algjör ósannindi, en ég verð bara að halda áfram mínu striki," sagði Curbishley sem fagnaði fyrsta sigrinum á tímabilinu í gær, 1:0 gegn Birmingham á útivelli. Craig Bellamy lék stórt hlutverk í sigrinum en hann krækti í vítaspyrnu sem Mark Noble skoraði úr.