Pálmi Haraldsson fjárfestir og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, eru samkvæmt heimildum Morgunblaðsins í viðræðum um kaup á stórum hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle United, en Newcastle er nú í eigu Englendingsins Mike Ashley, sem eignaðist 90 prósenta hlut í félaginu í lok júní á þessu ári.
Eignist Íslendingarnir ráðandi hlut verður Newcastle þar með annað enska úrvalsdeildarfélagið í eigu Íslendinga, því fyrir eiga þeir Björgólfur Guðmundsson og Eggert Magnússon ráðandi hlut í Lundúnaliðinu West Ham.
Newcastle, sem leikur heimaleiki sína á St. James Park í Newcastle-borg, er eitt sögufrægasta félag Bretlandseyja og hefur farið ágætlega af stað á nýhöfnu leiktímabili.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.