Úrskurðarnefnd ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu komst að þeirri niðurstöðu í dag að ekki væri hægt að þvinga Manchester United til að selja argentínska varnarmanninn Gabriel Heinze til Liverpool. Heinze vill fara þangað en United hefur hafnað því að selja hann til erkifjenda sinna og hann skaut máli sínu til stjórnar úrvalsdeildarinnar.
Heinze hélt því fram að í samningi sínum væri aðeins ákvæði um kaupverð en sér væri frjálst að fara til hvaða félags sem væri. Niðurstaða nefndarinnar er hinsvegar sú að ákvæðin í samningnum giltu aðeins ef um sölu til félags utan Englands væri að ræða.
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, og framkvæmdastjórinn David Gill mættu fyrir nefndina í gær og ítrekuðu þá afstöðu sína að selja ekki leikmann til keppinauta í úrvalsdeildinni. Það hefði verið gert Heinze ljóst, munnlega og skriflega, að það kæmi aldrei til greina.
Enginn leikmaður hefur verið seldur á milli þessara tveggja félaga í 45 ár, eða síðan Liverpool keypti Phil Chisnal af Manchester United árið 1962.
Heinze getur áfrýjað úrskurði nefndarinnar en hefur nú skamman tíma til stefnu ef hann ætlar að komast burt frá Manchester United að svo stöddu því lokað er fyrir félagaskipti um næstu mánaðamót, og til áramóta.