Arjen Robben líka á leiðinni til Real Madrid

Arjen Robben er á leið til Spánar eftir þriggja ára …
Arjen Robben er á leið til Spánar eftir þriggja ára dvöl í London. Reuters

Spænsku meistararnir Real Madrid hafa verið stórtækir síðustu klukkustundirnar því eftir að þeir náðu samkomulagi við Manchester United um kaup á Gabriel Heinze, sömdu þeir við Chelsea um að kaupa hollenska kantmanninn Arjen Robben. Chelsea staðfesti í kvöld að samkomulag hefði náðst og er talið að kaupverðið sé í kringum 21 milljón punda, rúmir 2,7 milljarðar íslenskra króna.

Að vanda eru kaupin háð því að Robben verði sáttur við kaup og kjör á Spáni og standist læknisskoðun hjá Real Madrid. Robben hefur spilað með Chelsea undanfarin þrjú ár og skorað 19 mörk í 104 leikjum en hann kom til félagsins frá PSV Eindhoven. Hann er 23 ára gamall og hefur þráfaldlega verið orðaður við Real Madrid í sumar en Chelsea bar þær fregnir lengi vel til baka.

Robben verður fjórði Hollendingurinn í röðum Real Madrid en þar eru fyrir þeir Ruud van Nistelrooy, Wesley Sneijder og Royston Drenthe.

Real seldi líka leikmann í dag en Cicinho fór þaðan til Roma á Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert