Ítalinn Flavio Briatore, liðsstjóri Renault-keppnisliðsins í Formúlu 1 kappakstrinum, er sagður undirbúa yfirtökutilboð í enska 1.deildar liðið Queens Park Rangers. Hann er ekki einn um að hafa áhuga á liðinu en stjórnarformaður QPR, Gianni Paladini, sem einnig er ítalskur, gaf það þó út í síðastliðinni viku að Briatore yrði næsti eigandi þessa 125 ára gamla félags.
Briatore er sagður ætla sér að hreinsa upp allar skuldir QPR, sem nema um 17 milljónum punda eða 2,2 milljörðum króna, og leggja til félagsins hátt í 13 milljarða króna á næstu þremur árum.