Solskjær leggur skóna á hilluna

Ole Gunnar Solskjær hefur lokið keppni með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær hefur lokið keppni með Manchester United. Reuters

Ole Gunnar Solskjær framherji Englandsmeistara Manchester United hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna af því er Sky sjónvarpsstöðin greindi frá í kvöld. Ástæðan er þrálát meiðsli sem hann hefur átt við að glíma.

Solskjær gekk til liðs við Manchester United frá norska liðinu Molde árið 1996 og hefur þessi 34 ára gamli sóknarmaður með barnsandlitið reynst Manchester-liðinu ákaflega vel. Hann skoraði til að mynda sigurmarkið gegn Bayern München í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 1999 og kom oftar en ekki liðinu til bjargar á ögurstundu.

Síðustu árin hefur Norðmaðurinn verið þjakaður af meiðslum og hann var frá keppni í meira en eitt ár eftir að hafa gengist undir eina af mörum aðgerðum vegna hnémeiðsla sem hafa orðið til að binda endi á feril hans með félaginu.

Solskjær lék 366 leiki fyrir Manchester United og skoraði í þeim 126 mörk. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og hugðist ljúka ferli sínu hjá liðinu eftir þetta tímabil en meiðslin tóku sig upp í hnénu í sumar og þurfti hann að fara undir hnífinn.

Solskjær skoraði 11 mörk fyrir United á síðustu leiktíð og varð Englandsmeistari með liðinu í 7. sinn. Þá varð hann bikarmeistari í þrígang með liðinu, vann deildabikarinn einu sinn og varð Evrópumeistari með liðinu 1999.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert