Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir mikla eftirsjá að Ole Gunnari Solskjær sem leikmanni en norski framherjinn tilkynnti í dag að sé hættur knattspyrnuiðkun vegna þrálátra meiðsla. Solskjær er þó ekkert á förum frá félaginu því hann kemur til með að starfa hjá félaginu sem einn af þjálfurum liðsins.
,,Ole hefur átt frábær 11 ár hjá félagin. Hann hefur afrekað allt og hann getur svo sannarlega verið stoltur af ferli sínum hjá Manchester United. Það er sjálfsögðu mikil eftirsjá að honum sem leikmanni. Hann hefur þjónað félaginu á frábæran hátt, hefur verið sannur atvinnumaður innan sem utan valar og ég ekki vafa um að hann mun verða góður þjálfari hjá okkur," sagði Ferguson á vef félagsins í dag.
Ole Gunnar lék 366 leiki fyrir Manchester United og skoraði í þeim 126 mörk en síðasti leikurinn sem hann lék fyrir United var úrslitaleikurinn gegn Chelsea í ensku bikarkeppninni í maí.
,,Ég vil þakka Sir Alex, þjálfarateyminu ásamt lækna- og sjúkraliðinu og stuðningsmönnum félagsins þann gríðarlega stuðning sem mér hefur verið sýndur á ferli mínum. Allir reyndust mér ákaflega vel þegar ég átti í meiðslum mínum. Ég er stoltur af því að hafa leikið með Manchester United í 11 ár og hef á þessum tíma upplifað frábærar stundir með liðinu," sagði Solskjær.
,,Ég hef oft verið spurður hvaða atvik standi upp úr á ferli mínum. Ég get sagt að fyrsta markið sem ég skoraði í leik gegn Blackburn líður mér seint úr minni. Eric Cantona var sá fyrsti sem fagnaði mér og þá áttaði ég mig á því að ég var staddur á Old Trafford," sagði Solskjær.
Líklega stendur sigurmarkið í leiknum gegn Bayern München í úrslitum Meistaradeildarinnar upp úr hjá þessum frábæra leikmanni, sem er í guða tölu hjá stuðningsmönnum Manchester-liðsins og fer í hóp með dáðustu leikmönnum United fyrr og síðar.