Craig Bellamy, fyrirliði velska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst vonast eftir því að West Ham verði hans síðasta félagi og hann spili þar ferlinn á enda. Eggert Magnússon og félagar keyptu Bellamy af Liverpool í sumar og hann spilar nú með sínu sjöunda félagi á aðeins átta árum.
„Þetta er mjög gott félag og það var vel valið hjá mér að koma hingað. Sennilega vegna þess að ég þekki svo marga í West Ham og vissi vel í hvaða umherfi ég væri að koma. Ég vona svo sannarlega að ég spili hér ferlinn á enda.
Vegna þess að ég gekkst undir aðgerð þegar ég var unglingur, er ekki víst að ég geti spilað lengur en til 34-35 ára aldurs. Næstu fimm árin eru mér því afar mikilvæg og ég get fest nafn mitt í sessi hjá West Ham, og vonandi tekst mé það með því að spila vel fyrir félagið," sagði Bellamy, sem hefur átt ansi skrautlegan feril, innan vallar sem utan.