Frank Lampard, miðjumaður Chelsea og enska landsliðsins í knattspyrnu, meiddist á æfingu hjá félagi sínu í dag og óvíst er hvort hann geti leikið með Englendingum gegn Ísrael og Rússlandi í undankeppni EM 8. og 12. september. Ljóst er að hann verður ekki með Chelsea gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni á sunnudaginn en hann reif vöðva í læri.
Fyrir Steve McClaren landsliðsþjálfara Englands eru þetta vondar fréttir en hann hefur þegar misst þá David Beckham og Wayne Rooney útúr liði sínu og tvísýnt er með Steven Gerrard.
Í yfirlýsingu á vef Chelsea eru meiðsli Lampards staðfest, en sagt að það sé of snemmt að segja til um hve lengi hann verði frá keppni.