Aston Villa sigraði Chelsea, 2:0, í síðasta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Chelsea tapaði þar með sínum fyrsta deildaleik síðan í janúar og náði ekki að komast á toppinn. Liverpool, Arsenal, Everton og Chelsea eru nú efst og jöfn með 10 stig en Liverpool og Arsenal eiga leik til góða á hin tvö.
Fylgst var með leiknum í textalýsingu á mbl.is:
88. Gabriel Agbonlahor kom Aston Villa í 2:0 með viðstöðulausu skoti frá vítapunkti eftir snögga sókn og fasta sendingu frá Ashley Young inní vítateiginn.
48. Aston Villa hefur náð forystunni en miðvörðurinn hávaxni, Zat Knight, skoraði þá í sínum fyrsta leik fyrir félagið, 1:0.
Staðan er 0:0 í hálfleik.
15. Leikurinn á Villa Park byrjar mjög fjörlega og eftir stundarfjórðung hafa markverðir liðanna, Scott Carson hjá Villa og Petr Cech hjá Chelsea, þurft að taka á honum stóra sínum í tvígang.
Frank Lampard er ekki í liði Chelsea vegna meiðsla en Belletti og Alex eru í fyrsta sinn í byrjunarliði bikarmeistaranna í fyrsta sinn og þá er Claude Makelele í byrjunarliðinu í fyrsta sinn á tímabilinu.