Manchester United ætlar að framlengja samninginn við Ryan Giggs um eitt ár en núgildandi samningur Walesverjans við Englandsmeistarana rennur út næsta vor. Samningaviðræður við Giggs hefjast síðar í þessum mánuði en stutt er í að hann slái leikjamet hjá félaginu en Giggs, sem er 33 ára gamall, hefur leikið allan sinn feril með Manchester-liðinu.
Forráðamenn United hyggjast bjóða Giggs sömu launakjör og hann hefur í dag en Giggs er með 75,000 pund í vikulaun sem samsvarar 9,7 milljónum króna.
Giggs, sem hefur níu sinnum orðið Englandsmeistari með liðinu, hefur leikið 721 leik með Manchester United og skortir aðeins 38 leiki til að slá leikjamet Bobby Charlton. Í þessum leikjum hefur Giggs skorað 141 mark, þar af 98 deildarmörk.