Alex Ferguson: Hjónabandið spillti Beckham

Victoria og David Beckham eru áberandi í skemmtanalífinu.
Victoria og David Beckham eru áberandi í skemmtanalífinu. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að vandamál Davids Beckhams hafi hafist þegar hann giftist eiginkonu sinni, poppstjörnunni Victoriu. Fram að því hafi hann verið einbeittur ungur knattspyrnumaður sem lagði allan sinn metnað í fótboltann.

Ferguson sagði þetta í hátíðarræðu í Glasgow í gærkvöld þar sem mörg málefni í fótboltanum bar á góma. Hann kvaðst jafnframt efast um að Beckham tækist að hafa afgerandi áhrif á vinsælir fótboltans í Bandaríkjunum eftir að hafa farið þangað til að spila með LA Galaxy.

Beckham ólst upp undir verndarvæng Fergusons hjá United. „Það voru aldrei nein vandamál með Beckham fyrr en hann giftist. Hann fór á æfingar með unglingaþjálfurunum á kvöldin og var stórkostlegur ungur piltur. En þegar hann giftist inní skemmtanaiðnaðinn breyttist líf hans og ljóst var að það yrði aldrei það sama uppfrá því. Hann er svo stórt nafn að fótboltinn er aukaatriði. Það er ímynd hans sem er í aðalhlutverki," sagði Ferguson sem seldi Beckham til Real Madrid árið 2003.

Um Beckham og Ameríkuævintýri hans sagði Skotinn: „Seint á áttunda áratugnum fór ég til Bandaríkjanna með Aberdeen og þar voru snjallir leikmenn eins og Teofilo Cubillas og Peter Shilton, og á undan þeim Pele, Cruyff og Beckenbauer. Ég veit ekki hvaða áhrif David Beckham getur haft, hann breytir ekki áhuga heillar þjóðar," sagði Alex Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert