Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United viðurkennir að hann hafi verið of fljótur á sér að afskrifa hollenska varnarmanninn Jaap Stam. Ferguson seldi Staam til Lazio og hafa margir stuðningsmenn félgasins talið að þar hafi Ferguson gert ein af fáum mistökum sínum en Ferguson er á sínu 21. ári sem knattspyrnustjóri Manchester-liðsins.
Staam yfirgaf Manchester United í ágúst 2001 en Lazio greiddi 16,5 milljónir punda fyrir leikmanninn. Skömmu áður en Staam var seldur kom út ævisaga hans þar sem fram kom gagnrýni á Ferguson og voru leiddar líkur á að Ferguson hefði látið Hollendinginn fara frá félaginu vegna þessa en skoski knattspyrnustjórinn hefur ávallt neitað því.
,,Við fengum tilboð frá Lazio í 29 ára gamlan miðvörð sem hljóðaði upp á 16,5 milljónir punda og það var tilboð sem ég get ekki neitað. En fótboltalega séð þá voru þetta mistök. Hann er enn að spila með Ajax og er að standa sig mjög vel," sagði Ferguson.
Stam, sem er 35 ára gamall, varð þrívegis enskur meistari með Manchester United og vann Evrópumeistaratitilinn 1999 en hann var í herbúðum Manchester-liðsins í þrjú ár. Hann átti góðu gengi að fagna með Lazio sem seldi hann til AC Milan fyrir 7 milljónir punda en fyrir síðustu leikíð gekk hann til liðs við Ajax.