Ferguson vill að Queiroz taki við af sér

Sir Alex Ferguson og Carlos Queiroz brosmildir eftir sigur sinna …
Sir Alex Ferguson og Carlos Queiroz brosmildir eftir sigur sinna manna. Reuters

Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United telur að aðstoðarmaður sinn, Carlos Queiroz, hljóti að koma sterklega til greina sem eftirmaður sinn en Ferguson segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um hvenær hann hyggst láta af störum hjá félaginu.

Ferguson, sem er 65 ára gamall, hefur verið við stjórnvölinn hjá Manchester-liðinu síðan 1986 og er sigursælasti knattspyrnustjóri Bretlandseyja. Queiroz, sem um tíma þjálfaði Real Madrid, hefur ekki farið dult með það að hann vill gjarnan taka við af Ferguson þegar að því kemur að Skotinn hætti.

,,Sem betur fer hef ég ekki tekið neina ákvörðun um framtíð mína. Ég hef frábæran aðstoðarmann, Carlos Queiroz, og að mínu mati kemur hann sterklega til greina sem næsti stjóri liðsins. En það eru komnir nýir eigendur og ég veit ekki hvernig þeir líta á hlutina. Aðalmálið hjá mér er að skilja við gott lið. Liðið í dag er mjög gott en það á eftir að verða betra," segir Ferguson.

Ferguson hugðist láta af störfum hjá Manchester United fyrir fimm árum en honum snerist hugur. Undir hans stjórn hefur United orðið enskur meistari níu sinnum, bikarmeistari fimm sinnum, hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða einu sinni, ensku deildabikarkeppnina tvisvar, Evrópukeppni bikarhafa einu sinni auk fleiri minni titla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert