Jóhannes Karl Guðjónsson verður í leikbanni þegar Íslendingar mæta Norður-Írum í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum á miðvikudagskvöldið, eins og fram kom í beinni lýsingu frá leiknum við Spánverja hér á mbl.is í kvöld.
Jóhannes Karl fékk sitt annað gula spjald í keppninni í leiknum í kvöld, á 36. mínútu, og þarf því að taka út eins leiks bann. Væntanlega kemur Eiður Smári Guðjohnsen inní hópinn í hans stað, annars Ásgeir Gunnar Ásgeirsson sem var utan hópsins sem 19. maður í leiknum í kvöld.
Það var Jóhannes Karl sem lagði upp mark Íslands gegn Spánverjum með hárnákvæmri og fastri fyrirgjöf frá hægri, sem Emil Hallfreðsson tók við og skallaði í mark Spánverja á glæsilegan hátt.