Peter Crouch framherjinn hávaxni í Liverpool og enska landsliðinu hefur afplánað leikbann og verður með Englendingum í leiknum mikilvæga gegn Rússum í undankeppni EM sem fram fer á Wembley annað kvöld. Líkur eru taldar að Crouch verði í byrjunarliðinu á kostnað Emile Heskey sem lék með Michael Owen í sigrinum á Ísraelsmönnum á laugardaginn.
,,Ég var mjög ánægður með leikinn gegn Ísrael en leikurinn við Rússa verður töluvert öðruvísi. Rússar eru mjög sterkir varnarlega og þetta verður mun erfiðari leikur. Peter er okkur mjög mikilvægur. Hann er markaskorari og nær vel saman með Owen og það er gott að hafa þann möguleika á geta notað hann," sagði Steve McClaren landsliðsþjálfari Englendinga.