Rússneskt dagblað heldur því fram í dag að Roman Abramovich, eigandi enska knattspyrnufélagsins Chelsea, hafi boðið leikmönnum rússneska landsliðsins samtals eina milljón punda, um 130 milljónir króna, takist þeim að leggja Englendinga að velli í kvöld. Þjóðirnar mætast á Wembley í London í geysilega þýðingarmiklum leik í undankeppni EM.
Talsmaður Abramovichs segir að fréttin eigi ekki við rök að styðjast en rússneska knattspyrnusambandið vísar henni ekki á bug. „Herra Abramovich dvelur vissulega mikið í Englandi en hann hefur ekki gleymt uppruna sínum og hann vill sjá okkur sigra England, rétt eins og allir sannir Rússar," var haft eftir talsmanni sambandsins.