Chelsea hafnar fréttum um Rússagreiðslur Abramovichs

Roman Abramovich borgar Rússum ekki sérstaklega fyrir sigur á Englandi, …
Roman Abramovich borgar Rússum ekki sérstaklega fyrir sigur á Englandi, samkvæmt yfirlýsingu Chelsea. Reuters

Enska knattspyrnuféalgið Chelsea sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagt er að fregnir rússneskra fjölmiðla í dag um að Roman Abramovich, eigandi Chelsea, greiði leikmönnum rússneska landsliðsins eina milljón punda ef þeir sigri England á Wembley í kvöld, eigi ekki við rök að styðjast.

Í yfirlýsingunni segir: „Roman Abramovich hefur aldrei boðið, lagt til eða lofað einhverjum aukagreiðslum til handa leikmönnum Rússlands fyrir að sigra England. Fjárhagslegur stuðningur herra Abramovichs við rússneska knattspyrnu, í gegnum knattspyrnusamband landsins, er ætlaður til þróunar íþróttarinnar í heild sinni og er ekki eyrnamerktur sérstökum leikjum. Herra Abramovich styður grasrótarstarf í Rússlandi, m.a. með því að byggja leikvanga, hjálpa til við uppbyggingu á akademíum og menntun þjálfara."

Abramovich hefur haldið miklum tengslum við knattspyrnuna í heimalandi sínu og því hefur oft verið haldi fram að hann sjái alfarið um launagreiðslur til Guus Hiddinks, landsliðsþjálfara Rússa.

Fjórir leikmenn Chelsea taka væntanlega þátt í landsleiknum gegn Rússum í kvöld en líklegt er að Ashley Cole, John Terry, Joe Cole og Shaun Wright-Phillips verði allir í byrjunarliði Englands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert