Benítez kvartar yfir landsleikjum en Jol hefur ekki áhyggjur

Martin Jol segir að öll liðin glími við sama vandamál …
Martin Jol segir að öll liðin glími við sama vandamál og sitji því við sama borð. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, kvartar yfir því að geta ekki undirbúið lið sitt sem skyldi fyrir átök helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni þar sem flestir sinna manna hafi verið fjarverandi í landsleikjum. Martin Jol, kollegi hans hjá Tottenham, tekur annan pól í hæðina og segir þetta ekki vera neitt vandamál.

Benítez fer með lið sitt í leik gegn Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth á laugardaginn. „Ég get ekki undirbúið liðið neitt að ráði fyrir leikinn, leikmennirnir skila sér ekki fyrr en síðdegis á fimmtudegi og við erum farnir til Portsmouth á föstudegi. Það er ekki hægt að vinna svona og þetta kann að kosta okkur dýrmæt stig gegn miðlungsliðum, sem við höfum ekki efni á," sagði Benítez.

Martin Jol fer með lið Tottenham í nágrannaslag gegn Arsenal á laugardaginn en lítur ekki á það sem ókost að leikmenn hans hafi flestir verið fjarverandi undanfarna tíu daga vegna landsleikja. „Það er auðvelt að setja að landsleikirnir séu vandamál en málið er að það sitja öll liðin við sama borð í þessum efnum. Því betra lið sem þú ert með, því fleiri landsliðsmenn áttu. Það eina sem hægt er að hugsa um er að búa sitt lið eins vel undir leikinn og kostur er," sagði Martin Jol.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert