Tveir leikmenn norður-írska landsliðsins í knattspyrnu, Keith Gillespie og George McCartney, slógust í flugvél Icelandair áður en hún hélt frá Keflavík í morgun að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpssins, BBC. Félagar þeirra í landsliðinu þurftu að skakka leikinn en N-Írar voru á heimleið eftir tapleikinn gegn Íslendingum í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Áhöfn flugvélarinnar tilkynnti Nigel Worthington landsliðsþjálfara N-Írlands um hvað hefði gerst áður en vélin fór í loftið og í yfirlýsingu sem n-írska knattspyrnusambandið sendi frá sér í dag segir að það muni fara ofan í saumana á þessu atviki og grípa til til viðeigandi ráðstafana.
Sjálfsmark frá Keith Gillespie fjórum mínútum fyrir leikslok réði úrslitunum en þetta var annar leikurinn í röð sem N-Írar tapa á sjálfsmarki. Hægri kantmaðurinn Gillespie leikur með Sheffield United en vinstri bakvörðurinn McCartney með Íslendingaliðinu West Ham.