Biðst afsökunar á ósannindum um andlát ömmu sinnar

Stephen Ireland kom sér í klandur með röngum upplýsingum.
Stephen Ireland kom sér í klandur með röngum upplýsingum. Reuters

Stephen Ireland, miðjumaður Manchester City, hefur beðið írska knattspyrnusambandið, leikmenn og alla fjölskyldu sína formlega afsökunar á því að hafa logið til um ástæður þess að hann yfirgaf landsliðshópinn fyrir leik Íra gegn Tékkum í undankeppni EM fyrr í vikunni.

Ireland fékk leyfi til að fara heim eftir fyrri leik Íra í ferðinni, gegn Slóvökum, þar sem hann skoraði fyrra mark þeirra í jafnteflisleik, 2:2. Ástæðan var að sögn sú að amma hans hefði látist en unnusta Irelands hringdi í forráðamenn knattspyrnusambandsins og tilkynnti þeim það.

Ireland yfirgaf hópinn en Steve Staunton landsliðsþjálfari hringdi í hann á mánudeginum og kvaðst hafa komist að því að amma hans á Írlandi væri sprelllifandi. Ireland sagði honum þá að um hina ömmu sína, í London, hefði verið að ræða.

Í gær hafði írska knattspyrnusambandið samband við Manchester City og lét vita af því að amman í London væri líka við hestaheilsu.

Ireland gekkst þá við því að hafa logið til um ástæður heimferðarinnar en það rétta var að unnusta hans missti fóstur á laugardeginum og bað hann um að koma heim. Þau töldu líklegra að hann fengi heimferðarleyfi ef fram kæmi að um andlát í fjölskyldunni væri að ræða.

Í ítarlegri afsökunarbeiðni á vef enska knattspyrnusambandsins í dag útskýrir Ireland málið í heild sinni og biður alla viðeigandi afsökunar, írska knattspyrnusambandið, liðsfélaga sína, ömmurnar og alla sína fjölskyldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka