Owen: Kominn aftur í mitt besta form

Michael Owen fagnar marki gegn Rússum.
Michael Owen fagnar marki gegn Rússum. Reuters

Michael Owen, framherji Newcastle og enska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst aldrei hafa verið í vafa um að hann næði sér að fullu á strik á ný eftir erfið meiðsli. Owen skoraði þrjú mörk fyrir Englendinga í sigurleikjum þeirra gegn Ísrael og Rússlandi á laugardag og miðvikudag og hefur nú gert 40 mörk fyrir landslið Englands.

„Það má vera að það séu margir leikmenn flinkari en ég en það eru ekki mjög margir sem ráða yfir sama andlega styrk. Þegar um er að ræða langtímameiðsli og skort á æfingu, er ég með þykkari skráp en flestir. Ég var aldrei í vafa. Ég fór til besta skurðlæknis sem völ var á og var allan tímann staðráðinn og fullviss um að ég kæmist aftur í mitt besta form. Það vita eflaust allir að ég mun skora mörk þegar ég er í fullri æfingu og ég hafði minnstar áhyggjur af því. Ég var í mjög góðu ásigkomulagi í sumar og lagði geysilega hart að mér við æfingar," sagði Owen við Daily Mirror í morgun.

Hann vantar níu mörk til að ná markameti Bobby Charltons fyrir England og stefnir ótrauður að því. "Ég er bara 27 ára og á langan tíma fyrir höndum áður en ég fer að dala. Það er búið að spyrja mig um met Charltons síðan ég skoraði 30. markið og vonandi á ég eftir að skora níu til viðbótar, sem væri frábær árangur. Það er langt í það enn og allir vita að á einu ári er mjög gott að skora 3-4 landsliðsmörk svo þetta gæti tekið nokkur ár," sagði Owen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka