Sá óvenjulegi atburður átti sér stað í Nottingham í kvöld að leikmenn Leicester leyfðu markverði Nottingham Forest, Paul Smith, að skora mark strax eftir upphafsspyrnu leiksins, þegar liðin mættust í enska deildabikarnum í knattspyrnu.
Þegar liðin mættust fyrr í haust var leiknum hætt í hálfleik vegna þess að Clive Clarke, leikmaður Leicester, fékk hjartaáfall. Þá var staðan 1:0 fyrir Nottingham Forest. Forráðamenn Leicester töldu að réttlátt væri að Forest fengi að hefja leikinn með 1:0 forystu þegar hann var spilaður að nýju og því var gripið til þessarar óvenjulegu aðferðar til að sýna heiðarleika í verki.
„Þetta er ekki slæmt fyrir fótboltann, ég er stoltur af leikmönnum okkar og ánægður með að við gerðum þetta. Hugmyndin kom frá öllum í félaginu - allir viljum við vinna leiki en heiðarleiki og sanngirni eru líka nauðsynlegir þættir. Ákvörðunin var erfið en sú eina rétta," sagði Milan Mandaric, stjórnarformaður Leicester.
„Ég ræddi við Colin Calderwood stjóra Forest 20 mínútum áður en leikurinn hófst og útskýrði fyrirætlun okkar en þessu var haldið leyndu þar til leikurinn var að byrja," sagði Gary Megson, knattspyrnustjóri Leicester.
„Leicestermönnum þótti þetta viðeigandi og ég viðurkenni að okkur var nokkuð brugðið til að byrja með. En þetta var gert með glæsibrag og ég tel að fótboltinn sem slíkur hafi verið sigurvegarinn í þessum leik og ég held að áhorfendur hafi upplifað þetta á réttan hátt," sagði Calderwood, knattspyrnustjóri Forest.
Forgjöfin dugði ekki liði Forest sem beið að lokum lægri hlut, 2:3, eftir að hafa verið 2:1 yfir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.