Í opnu bréfi til stuðningsmanna Chelsea sem birt er á vef félagsins í dag kemur fram að Jose Mourinho hafi ekki verið rekinn og hafi ekki sagt upp störfum heldur hafi báðir aðilar komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hann léti þegar í stað af störfum.
Í bréfinu til stuðningsmannanna segir meðal annars; ,,Snemma í morgun tilkynntum við að Chelsea og Jose Mourinho hafi náð samkomulagi um starfslok hans hjá félaginu. Það skal skýrt tekið fram að um samkomulag var að ræða. Jose sagði ekki upp og hann var ekki rekinn. Brestur var komið í samband milli stjórnar félagsins og Jose og ástæðan fyrir að þessi ákvörðun var tekin er sú að við höldum að þetta ástand hafi hindrað framgang liðsins og síðustu úrslit styðja þá skoðun okkar."
Mourinho er sigursælasti knattspyrnustjórinn í sögu Chelsea en undir hans stjórn varð liðið tvívegis enskur meistari, vann bikarinn einu sinni, deildabikarinn í tvígang og Samfélagsskjöldinn einu sinni.
,,Við berum mikla virðingu fyrir því frábæra starfi sem Jose innti af hendi fyrir Chelsea. Hann er sigursælasti knattspyrnustjóri félagsins frá upphafi og hefur ritað nafn sitt rækilega í sögubækur Chelsea. Hann mun alltaf verða velkominn á Stamford Bridge, hvort sem hann verður gestur eða knattspyrnustjóri annars félags," segir ennfremur í opna bréfinu til stuðningsmannanna.