Frakkinn Didier Deschamps þykir koma sterklega til greina sem eftirmaður Jose Mourinho sem knattspyrnustjóri Chelsea en búist er við því að Ísraelinn Avram Grant verði í dag ráðinn tímabundið í starfið og stjórni liðinu gegn Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn.
Deschamps, sem var fyrirliði Frakka þegar þeir urðu heimsmeistarar 1998, lék með Chelsea á árunum 199-2000 og varð bikarmeistari með liðinu. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá Mónakó þar sem hann gerði góða hluti með og tók síðan við þjálfun Juventus. Hann hætti hjá ítalska liðinu í maí í vor og ekki neinu starfi núna.
Brotthvarf Mourinho frá Chelsea kom mörgum í opna skjöldu en vitað er þó að hann og Abramovich, eigandi Chelsea, hafa eldað grátt silfur saman síðustu mánuði. Eftir jafnteflið við Rosenborg í Meistaradeildinni í fyrrakvöld sauð á rússneska auðjöfrinum en ekki liggur ljóst fyrir hvort Mourinho gekk á dyr eða var rekinn en neyðarfundur var í herbúðum Lundúnarliðsins í gærkvöld.
Mourinho mun hafa haft samband við fimm af leikmönnum sínum í gærkvöld þar sem hann greindi þeim frá tíðindunum en margir leikmenn Chelsea og starfslið félagsins voru í kvikmyndahúsi í gærkvöld að fylgjast með myndinni Bláa byltingin. Myndin fjallar um Roman Abramovich eiganda Chelsea og árin sem hefur verið við völd hjá félaginu.