Benítez neitaði að tjá sig um Mourinho

Rafael Benítez og Jose Mourinho elduðu oft grátt silfur saman.
Rafael Benítez og Jose Mourinho elduðu oft grátt silfur saman. Reuters

Margir knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni hafa lýst yfir miklum vonbrigðum yfir brotthvarfi Jose Mourinho frá Chelsea. Hans helstu keppinautar, Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger, eru þeirra á meðal og segjast koma til með sakna Portúgalans en Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool kaus að svara engu þegar hann var spurður út í mál Mourinho og Chelsea í dag.

,,Þið vitið hvernig samband mitt hefur verið við hann og ég tel best að segja ekkert um þetta mál," sagði Benítez á vikulegum fundi með fréttamönnum í dag. Benítez og Mourinho hafa oft tekist á og hafa fúkyrðin gengið þeirra á milli ekki síst fyrir og eftir leiki liðanna í Meistaradeildinni.

,,Þessa stundina hef ég meiri áhyggjur af Steve Bruce knattspyrnustjóra Birmingham. Mér finnst ekki rétt af mér sem knattspyrnustjóra að ræða um önnur félög í þessari stöðu. Það sem er hins vegar á hreinu er að Chelsea er með gott lið og fullt af góðum leikmönnum," bætti Benítez við en hans menn eiga í höggi við nýliðanna á Anfield á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert