Enska knattspyrnufélagið Chelsea tilkynnti síðla kvölds að það hefði gengið frá öllum málum gagnvart fráfarandi knattspyrnustjóra sínum, José Mourinho, sem hætti störfum í morgun. Mourinho kveðst mjög stoltur af þeim árangri sem hann náði með Chelsea.
Samkvæmt BBC er talið að hann fái greiddar um 20 milljónir punda, um 2,6 milljarða króna, fyrir þau þrjú ár sem hann átti eftir af samningi sínum við félagið.
„Ég er mjög stoltur af starfi mínu hjá Chelsea og tel að það hafi verið frábær ákvörðun hjá mér að koma til Englands árið 2004. Þetta var glæsilegur og gefandi kafli á mínum ferli og ég vil þakka öllum stuðningsmönnum Chelsea, en ég tel að ást mín á félaginu muni aldrei dvína. Ég óska félaginu mikillar velgengni, þetta er félag sem mun ávallt tengjast mér vegna sögulegra stunda.
Ég óska leikmönnunum gæfu og gengis í fótboltanum og í fjölskyldulífi sínu. Að lokum vil ég fyrir hönd konu minnar og barna þakka fyrir frábæra fagmennsku kennara þeirra og yndislegra tíma með fjölmörgum vinum," sagði Mourinho í sinni yfirlýsingu.