José Mourinho ætlar sér að taka aftur við ensku úrvalsdeildarliði en fyrst ætlar hann að reyna fyrir sér í ítölsku eða þýsku knattspyrnunni. Hann aftekur með öllu að hann verði næst landsliðsþjálfari Portúgals og kveðst ekki hafa neinn áhuga á að þjálfa í heimalandi sínu.
Mourinho var orðaður við Tottenham strax og ljóst varð að hann væri að hætta störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea, og þá veðjuðu margir á að hann myndi taka við af Luis Felipe Scolari sem landsliðsþjálfari Portúgals.
„Ég mun koma aftur til Englands og stjórna liði, en vil ekki gera það strax - fyrst vil ég fara til annars lands og reyna eitthvað nýtt, fást við annars konar fótbolta. Ég er 44 ára og vona að ég eigi mörg ár eftir í ensku knattspyrnunni. Ég elska enskan fótbolta," sagði Mourinho við BBC í dag.
„Ég vil ekki taka við portúgalska landsliðinu, það vil ég að sé alveg á hreinu. Ég vil að þar sé unnið í friði og ró og vil ekki að Scolari þurfi stöðugt að horfa um öxl og haldi að ég sé að bíða eftir starfinu. Það er ekki bara landsliðið, ég vil ekki starfa í portúgölsku knattspyrnunni," sagði Mourinho, sem talar spænsku og frönsku en vill bæta nýju tungumáli í safnið. „Ég verð að velja á milli ítölsku og þýsku."
Mourinho hvatti jafnframt fyrrum lærisveina hjá Chelsea til að fylkja sér á bakvið nýja stjórnendur á Stamford Bridge. Margir leikmanna liðsins hafa gefið í skyn að þeir séu mjög ósáttir við brotthvarf Portúgalans og gætu hugsað sér til hreyfings síðar í vetur eða næsta sumar.
„Ég vil ekki að leikmennirnir hóti því að fara vegna þess að ég sé farinn. Ég vil ekki að stuðningsmenn Chelsea séu að syngja nafnið mitt, ég vil engar mótmælaaðgerðir. Mér líður mjög vel, ég er ánægður með að vera farinn, og ég er ánægður með þeim árangri sem ég náði með Chelsea. Ekki bara úrslitunum heldur hvernig ég setti mark mitt á félagið," sagði José Mourinho.