Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var að vonum mjög ánægður með frammistöðu sinna manna í dag þegar þeir sigruðu Derby mjög örugglega, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni. Hann hrósaði mjög framherjanum Emmanuel Adebayor sem skoraði þrennu í leiknum.
„Adebayor er orðinn sterkari en áður, það sést best í návígjum þar sem hann beitir líkamanum. Hann er eins og ljón, krafturinn skín af honum, sem hann gerði svo sem líka áður en nú er hann orðinn yfirvegaðri í marktækifærunum," sagði Wenger á vef Arsenal.
„Þrátt fyrir erfiðan leik í Meistaradeildinni, héldum við góðri einbeitingu í dag. Líka þegar leikurinn var orðinn okkur auðveldur, þá héldum við gæðum í okkar spili. Það er örugglega mjög gaman að horfa á liðið því leikmenn okkar slaka ekki á og fara að hugsa hver um sjálfan sig í svona stöðu, heldur spila þeir áfram sem ein heild. Þeir ætla sér stóra hluti, eru ekki í þessu til að sýna sig, heldur til þess að ná árangri saman," sagði Wenger.