Haft er eftir Bernd Schuster, þjálfara Real Madrid, í enskum fjölmiðlum í dag að hann hafi áhuga á að krækja í Didier Drogba, sóknarmanninn öfluga hjá Chelsea. Drogba kveðst hafa verið í uppnámi síðan José Mourinho hætti störfum sem knattspyrnustjóri Chelsea í vikunni og segir að framtíð sín sé óviss.
„Drogba er ofarlega á okkar lista og við höfum haft augastað á honum lengi," er haft eftir Bernd Schuster, sem staðfesti ennfremur áhuga félagsins á öðrum leikmanni Chelsea, Michael Ballack. „Ég sagði í sumar að ég vildi fá Ballack en vandamálið er að hann er meiddur og það er ekkert vitað um hvenær hann byrjar að spila á ný, svo það mál er í biðstöðu," sagði Schuster.
Drogba segir sjálfur að hann sé engan veginn búinn að jafna sig á því að Mourinho sé farinn frá Chelsea. „Ég skammast mín ekkert fyrir að segja að ég grét þegar ég heyrði að hann væri hættur. Ég á honum nánast allt að þakka, þessar fréttir voru fyrir mér eins og að missa föður minn. Ég grét, og hef grátið aftur síðan. Ég og félagar mínir elskum Chelsea og viljum að félagið verið áfram í fremstu röð en ég get ekkert sagt um framtíðina," sagði Drogba við dagblaðið Daily Star í dag.