Arsenal er orðið ríkasta félag Englands

Arsenal fagnar góðu gengi þessa dagana, innan vallar sem utan.
Arsenal fagnar góðu gengi þessa dagana, innan vallar sem utan. Reuters

Arsenal er orðið ríkasta knattspyrnufélag Englands, samkvæmt ársreikningi síðasta fjárhagsárs, sem lauk þann 31. maí 2007, og var birtur í morgun. Samkvæmt honum hefur Arsenal aukið rekstrarhagnað sinn um hvorki meira né minna en 274 prósent.

Veltan á síðasta rekstrarári var rúmar 200 milljónir punda, um 25,2 milljarðar króna. Á sama tíma var veltan Manchester United 167,8 milljónir punda og hjá Chelsea 152,8 milljónir punda. Rekstrarhagnaður Arsenal á árinu var 51,2 milljónir punda.

Þessi stóra breyting er fyrst og fremst þökkuð Emirates-leikvanginum sem Arsenal lék á í fyrsta skipti á síðasta keppnistímabili. Á Highbury, gamla heimavöllinn, komust aðeins rúmlega 38 þúsund áhorfendur en á Emirates komast um 60 þúsund manns á hvern heimaleik. Innkoma af hverjum heimaleik síðasta vetur nam rúmum 3 milljónum punda eða um 390 milljónum króna.

„Þessar niðurstöður gefa til kynna hvernig félagið mun þróast til lengri tíma. Besta leiðin fyrir Arsenal til að ná árangri er að rekstur félagsins sé á þennan veg. Við höfum alltaf reynt, og höldum áfram, að nota hagnað til fjárfestinga, og nýta umframtekjur til að styrkja liðið. Emirates leikvangurinn færir nú félaginu mjög traustan fjárhagsgrunn og á honum munum við byggja sigurlið hjá Arsenal um ókomin ár," sagði Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, þegar niðurstaðan var kynnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert