Fabregas: Tilbúinn að spila með Arsenal næsta áratuginn

Cesc Fabregas er ánægður með lífið hjá Arsenal.
Cesc Fabregas er ánægður með lífið hjá Arsenal. Reuters

Cesc Fabregas, spænski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal, kveðst vera svo ánægður með lífið hjá félaginu þessa dagana að hann sé tilbúinn til að spila með því næsta áratuginn. Hann sagði ennfremur að það hefði verið gott fyrir félagið að losna við Thierry Henry sem fór til Barcelona í sumar en sjálfur hefur Fabregas ítrekað verið orðaður við stærstu félögin í heimalandi sínu.

Fabregas, sem er tvítugur, hefur skorað í sex leikjum í röð fyrir Arsenal en fram að því hafði hann ekki gert mikið af því að skora mörk. Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur spilað stórgóða knattspyrnu það sem af er tímabilinu en margir spáðu því að liðið myndi ekki bera sitt barr eftir að Thierry Henry hvarf á braut.

„Á þessari stundu sé ég sjálfan mig fyrir mér í búningi Arsenal eftir tíu ár. Ég elska allt í kringum enska fótboltann, hraðann og sóknarknattspyrnuna. Mér líður eins og ég sá strákur í götufótbolta," sagði Fabregas í samtali við dagblaðið The Times.

Hann sagði að við brotthvarf Henrys hefðu margir leikmanna liðsins stigið fram úr skugganum og leikið stór hlutverk í liðinu. „Henry var á ýmsan hátt erfiður. Hann er frábær leikmaður en það var ekki auðvelt að spila með honum. Við vorum dálítið þvingaðir, bundnir af því sem hann vildi gera. Svo sögðu allir að við myndum ekkert geta í vetur án hans. Það hefur hvatt alla til dáða," sagði Cesc Fabregas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert