Nígeríski knattspyrnumaðurinn John Obi Mikel hjá Chelsea fer í þriggja leikja bann vegna brottrekstursins gegn Manchester United á sunnudaginn. Áfrýjun Chelsea var vísað frá í dag en félagið krafðist þess að rauða spjaldið yrði fellt niður þar sem það hefði alls ekki átt rétt á sér.
Mikel verður í banni gegn Hull í deildabikarnum og gegn Fulham og Bolton í úrvalsdeildinni.
Mikel braut á Patrice Evra eftir 32 mínútna leik á Old Trafford og Mike Dean dómari vísaði honum strax af velli. Samkvæmt reglum FIFA hefði Chelsea þurft að sýna framá að Dean hefði alls ekki átt að dæma neitt til þess að eiga möguleika á að fá spjaldið fellt niður.